Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 130/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 130/2020

Mánudaginn 26. maí 2020

 

 

A

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 10. mars 2020 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 27. febrúar 2020, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 12. mars 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 13. mars 2020. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. mars 2020, og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd X. Hún er einstæð og býr í 90 fermetra leiguíbúð ásamt X barni. Kærandi er í 80% starfshlutfalli.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 27. febrúar 2020 eru 10.241.643 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) nema skuld kæranda við LÍN að fjárhæð 3.697.514 krónur. Eignir kæranda eru inneign á bankareikningi að fjárhæð 65.119 kr.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun með tölvupósti til Embættis umboðsmanns skuldara, dags. 10. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2020, var kæranda tilkynnt að við vinnslu á umsókn hennar hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar umsóknar hennar um greiðsluaðlögun. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram skýringar og gögn áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Með ákvörðun umboðsmanns, dags. 27. febrúar 2020, var umsókn kæranda hafnað á ný sem fyrr með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge., auk f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge, þar sem talið var að kærandi hefði á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og hún verði samþykkt í greiðsluaðlögun.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi misst […]. Í kjölfarið hafi þróast hjá henni kaupsýki sem olli því að hún hafi komið sér í skuldir sem hún hafi ekki getað staðið við. Þetta hafi verið staðfest með vottorði frá lækni sem hafi verið skilað til umboðsmanns skuldara. Kærandi kveður andlega heilsu sína á uppleið en fjárhagsstaða hennar hamli bata. Kærandi kveðst vera í meðferð við vanda sínum en félagsleg og fjárhagsleg staða hennar sé ekki góð og því þurfi hún á hjálp að halda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þeirra aðstæðna sem þar séu tilgreindar.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtali 2019, vegna ársins 2018, hafi laun kæranda frá Ríkissjóði Íslands og aðrar skattskyldar tekjur hennar numið samtals 4.055.931 kr., eftir frádrátt skatts. Skattfrjálsar tekjur kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2018 í formi meðlags, barnalífeyris og umönnunarbóta hafi numið samtals 1.334.424 kr. Húsnæðisbætur kæranda hafi numið 482.045 kr. á árinu 2018 og sérstakur húsnæðisstuðningur numið 331.876 kr. Samkvæmt álagningarseðli RSK 2018 hafi kærandi fengið greiddar samtals 321.912 kr. í barnabætur á árinu 2018.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi heildartekjur kæranda á árinu 2018, eftir frádrátt skatts, verið samtals 6.526.188 kr., eða að meðaltali 543.849 kr. á mánuði.

Áætlaður framfærslukostnaður kæranda á árinu 2018, samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir einstakling með X barn á framfæri í febrúar 2020, hafi verið 211.428 kr. á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi húsaleiga kæranda numið 160.000 kr. á mánuði og tryggingar 15.000 kr. á mánuði, sbr. upplýsingar úr umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá hafi verið gert ráð fyrir kostnaði við útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra við útreikning á framfærslukostnaði.

Heildarframfærslukostnaður kæranda á árinu 2018 nam því að meðaltali 388.841 kr. á mánuði.

Miðað við framangreindar forsendur um tekjur kæranda og framfærslukostnað hafi greiðslugeta hennar til greiðslu lána og annarra skuldbindinga, verið að meðaltali 155.008 kr. á árinu 2018.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra námu launatekjur kæranda á árinu 2019 frá Ríkissjóði Íslands samtals 4.444.668 kr., eftir frádrátt skatts. Skattfrjálsar tekjur kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019 í formi meðlags, barnalífeyris og umönnunarbóta, hafi numið samtals 1.250.085 kr. Húsnæðisbætur kæranda hafi numið 434.215 kr. og sérstakur húsnæðisstuðningur numið 139.874 kr. á árinu 2018. Samkvæmt álagningarseðli RSK 2019 fékk kærandi greiddar samtals 319.448 kr. í barnabætur á árinu 2019.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi heildartekjur kæranda á árinu 2019, eftir frádrátt skatts, verið samtals 6.588.290 kr., eða að meðaltali 549.024 kr. á mánuði. Heildarframfærslukostnaður kæranda á árinu 2019 hafi verið áætlaður að meðaltali 388.841 kr. á mánuði, sbr. ofangreint.

Miðað við framangreindar forsendur um tekjur kæranda og framfærslukostnað hafi greiðslugeta hennar til greiðslu lána og annarra skuldbindinga, verið að meðaltali [160.183] á árinu 2019.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi stofnað til ýmissa skuldbindinga á tímabilinu apríl 2018 til ágúst 2019 en heildargreiðslubyrði þeirra hafi numið 355.635 kr. á mánuði. Auk þess hafi mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af námslánum verið að meðaltali 16.259 kr. á mánuði. Að teknu tilliti til námslána kæranda hafi samanlögð greiðslubyrði hennar því verið 371.894 kr. á mánuði.

Í janúar 2019 hafi mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af þeim skuldbindingum, sem hún hafði þá þegar stofnað til, numið samtals 153.692 kr. og að teknu tilliti til afborgana námslána samtals 169.951 kr. Greiðslugeta kæranda til greiðslu lána og annarra skuldbindinga hafi á sama tíma numið 160.183 kr. Þrátt fyrir það hafi kærandi stofnað til enn frekari skuldbindinga á tímabilinu frá febrúar 2019 til ágúst 2019. Mánaðarleg greiðslubyrði þeirra skuldbindinga sem kærandi hafi stofnað til á því tímabili hafi numið samtals 201.943 kr.

Þegar tekið hafi verið mið af ofangreindu hafi að mati umboðsmanns skuldara ekki annað verið séð en að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á tímabilinu febrúar 2019 til ágúst 2019 þegar hún var greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Kærandi hafi þannig hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi ekki verið séð, að mati umboðsmanns skuldara, þegar tekið sé mið af fyrirliggjandi gögnum, að þær lánaskuldbindingar sem kærandi hafi stofnað til á ofangreindu tímabili hafi verið nauðsynlegar til framfærslu fjölskyldunnar.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun hafi umsækjandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni.

Þann 29. júlí hafi kærandi fest kaup á C bifreið, árgerð 2018, skráningarnúmer X. Kaupverð bifreiðarinnar hafi numið 1.590.000 kr. samkvæmt upplýsingum frá Lykli fjármögnun. Kærandi hafi tekið lán í formi bílasamnings hjá Lykli fjármögnun hf., að fjárhæð 1.460.000 kr., vegna kaupa á bifreiðinni. Kærandi hafi einnig tekið tvö lán hjá Greiðslumiðlun vegna kaupa á bifreiðinni, annað að fjárhæð 130.000 kr. þann 25. júlí 2019 og hitt að fjárhæð 39.900 kr.,þann 16. ágúst 2019. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi aðeins greitt einn gjalddaga, í september 2019, af fyrra láninu hjá Greiðslumiðlun en ekkert af því síðara.

Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá Creditinfo hafi nýr umráðamaður tekið við bifreiðinni þann 7. nóvember 2019.

Að sögn kæranda hafi það verið afi hennar sem tekið hafi við yfirráðum bifreiðarinnar og við umráðaskiptin hafi lán frá Lykli fjármögnun verið greitt upp, en lánið hafi staðið í 1.398.931 kr. á þeim tíma að sögn kæranda.

Þegar tekið sé mið af ásettu söluverði sambærilegra bifreiða á bílasölum, samkvæmt vefnum www.bilasolur.is hafi mátt gera ráð fyrir að söluverðmæti sambærilegra bifreiða að gerð, aldri og tegund og bifreiðin X hafi verið í kringum 1.490.000-1.590.000 kr.

Að mati umboðsmanns skuldara geti það varðað við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. að selja bifreið til nákomins á undirverði þar sem umsækjandi hafi þá á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni.

Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir skýringum kæranda á ákveðnum atriðum með bréfi, dags. 11. febrúar 2020, og henni gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar tilgreind álitaefni og leggja fram gögn.

Með hliðsjón af ákvæðum b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir nánari skýringum frá kæranda á lántökum á tímabilinu frá janúar 2019 og að lögð yrðu fram gögn er sýndu fram á að ekki hefði verið stofnað til skulda á þeim tíma sem kærandi hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Einnig hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir því að kærandi legði fram gögn, teldi hún útreikning umboðsmanns skuldara á greiðslugetu hennar rangan.

Með hliðsjón af ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir nánari upplýsingum um umráðaskipti bifreiðarinnar X, meðal annars hvert söluverðmæti bifreiðarinnar hafi verið, hvernig því hafi verið ráðstafað og hvers vegna nýr umráðamaður hafi ekki greitt upp eða yfirtekið lán kæranda hjá Greiðslumiðlun sem tekin hafi verið til kaupa á bifreiðinni.

Kærandi hafi svarað bréfi umboðsmanns skuldara með tölvupósti 12. febrúar 2020 þar sem hún hafi greint frá því að hún hefði orðið fyrir áfalli í X sem hefði leitt til þess að hún fór og verslaði. Jafnframt hafi kærandi ekki áttað sig á því að þegar dóttir hennar næði 18 ára aldri í X myndi innkoma hennar lækka um um það bil 150.000 kr. á mánuði. Þá hafi kærandi greint frá því að bifreiðin X hefði verið seld og einungis verið um nafnabreytingu á láni að ræða en engir fjármunir hafi verið í spilinu. Umboðsmaður skuldara hafi svarað tölvupósti kæranda samdægurs og greint kæranda frá því að skýringar hennar þættu að mati embættisins ekki fullnægjandi.

Þann 21. febrúar 2020 hafi umboðsmanni skuldara borist afrit af læknisvottorði frá heimilislækni kæranda til stuðnings skýringum hennar á lántökum á tímabilinu janúar 2019 til ágúst 2019.

Þann 26. febrúar 2020 hafi kærandi veitt viðbótarskýringar vegna umráðaskipta bifreiðarinnar X þar sem fram hafi komið að afi hennar hefði tekið við umráðum bifreiðarinnar. Hann hefði tekið lán hjá Lykli fjármögnun hf., að fjárhæð 1.350.000 kr., og greitt 48.931 kr. með millifærslu og bílasamningur kæranda hjá Lykli fjármögnun sem staðið hefði í 1.398.931 kr. hefði þá verið uppgreiddur. Hvað varði fyrirspurn embættisins á því hvers vegna nýr umráðamaður hefði ekki greitt upp eða yfirtekið lánin hjá Greiðslumiðlun, sem tekin hefðu verið til kaupa á bifreiðinni, hafi kærandi greint svo frá að það hefði gleymst að hugsa út í það.

Samkvæmt upplýsingum frá Lykli fjármögnun hf. hafi umráðamaður tekið yfir umráðum bifreiðarinnar X þann 7. nóvember 2019. Samkvæmt upplýsingum frá Lykli fjármögnun hafi kaupverð bifreiðarinnar numið 1.500.000 kr. Samkvæmt kaupsamningi hafi nýr umráðamaður átt að fjármagna kaupin með bílasamningi hjá Lykli fjármögnun að fjárhæð 1.350.000 kr. og greiða 150.000 kr. í peningum. Að sögn kæranda hafi nýr umráðamaður aðeins greitt 48.931 kr. með peningum/millifærslu. Ekki hafi verið séð hvers vegna nýr umráðamaður hafi ekki greitt kæranda fullt kaupverð, en mismunur á þeirri fjárhæð sem hafi átt að greiðast til kæranda samkvæmt kaupsamningi, 150.000 kr., og þeirrar millifærslu sem kærandi kveðst hafa fengið greidda, nemi 101.069 kr. Að mati umboðsmanns skuldara sé sú háttsemi kæranda að selja bifreiðina á undirverði til nákomins ættingja eða að krefjast ekki greiðslu samkvæmt kaupsamningi, talin varða við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Þá geti skýringar kæranda um að gleymst hafi að hugsa út í uppgreiðslu lána umsækjanda hjá Greiðslumiðlun við umráðaskipti bifreiðarinnar X ekki breytt því mati embættisins að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi hér við.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara er vísað til þess að í hinni kærðu ákvörðun hafi verið farið ítarlega yfir tekjur kæranda á árunum 2018 og 2019, framfærslukostnað og greiðslugetu, sem og greiðslubyrði þeirra skuldbindinga sem kærandi hafi stofnað til á árunum 2018 og 2019.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu varðandi tekjur kæranda og áætlaðan framfærslukostnað, hafi greiðslugeta kæranda á árinu 2018 verið 155.008 kr. og að meðaltali 156.183 kr. á árinu 2019. Í janúar 2019 hafi mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af þeim skuldbindingum, sem kærandi hafði þá þegar stofnað til, numið samtals 153.692 kr. Sé tekið tillit til mánaðarlegrar afborgunar af námslánum kæranda hjá LÍN, sem nemi að meðaltali 16.259 kr., hafi greiðslubyrði kæranda af þeim skuldbindingum sem kærandi hafi stofnað til í janúar 2019 numið samtals 171.267 kr. á mánuði. Þrátt fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði af skuldbindingum kæranda hafi í janúar 2019 verið orðin hærri en greiðslugeta hennar, hafi kærandi engu að síður stofnað til enn frekari skuldbindinga á tímabilinu frá febrúar til ágúst 2019. Þær skuldbindingar sem kærandi hafi stofnað til á tímabilinu frá febrúar til ágúst 2019 séu ítarlega raktar í hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi mánaðarleg greiðslubyrði þeirra skuldbindinga sem kærandi hafi stofnað til á tímabilinu frá febrúar til ágúst 2019 numið samtals 201.943 krónur.

Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af þeim skuldbindingum sem hún hafi stofnað til á árunum 2018 og 2019 hafi því samtals numið 355.635 kr. Því til viðbótar sé kærandi með námslán að fjárhæð 3.697.514 kr. og yfirdrátt á bankareikningi hjá Íslandsbanka, sem við vinnslu á umsókn kæranda hafi numið 365.285 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eigi kærandi ekki eignir.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi farið fram heildstætt mat á fjárhagsstöðu kæranda þar sem litið hafi verið til tekjustöðu, skuldastöðu og eignastöðu hennar á því tímamarki er hún hún hafi stofnað til fjárskuldbindinga á árunum 2018 og 2019. Við vinnslu málsins hafi kærandi aldrei mótmælt útreikningum embættisins á tekjum hennar, framfærslukostnaði eða greiðslugetu.

Að því virtu að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hún hafi greinilega verið ófær um að standa við skuldbindingarnar, með tilliti til tekna og eignastöðu, hafi niðurstaðan verið sú að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem hafi orðið að lge. komi fram að ástæður sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Mat umboðsmanns skuldara hafi verið það að rekja mætti fjárhagserfiðleika kæranda að öllu leyti til eigin háttsemi hennar og því hafi verið óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi hafi lagt fram vottorð frá heimilislækni, dags. 18. febrúar 2020, þar sem fram komi að kærandi hafi glímt við alvarleg veikindi í kjölfar áfalls haustið X. Í vottorðinu sé ekki að finna staðfestingu á því að kærandi hafi verið ófær um að bera ábyrgð á þeim atvikum sem hafi leitt til þess fjárhagsvanda sem kærandi standi nú frammi fyrir. Þá verði að mati umboðsmanns skuldara ekki talið að framlagt vottorð frá heimilislækni staðfesti að kæranda hafi ekki mátt vera ljóst að hún væri ekki fær um að standa undir greiðslum af þeim skuldbindingum sem hún hafi stofnað til á árinu 2019. Með hliðsjón af orðalagi ákvæða b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge., almennum athugasemdum við frumvarp til laganna sem og öðrum lögskýringargögnum, geti það að mati embættisins ekki verið hlutverk umboðsmanns skuldara að meta hvort veikindi kæranda og sú háttsemi hennar að eyða um efni fram í leit að betri líðan, sé til þess fallin eða í eðli sínu þannig að víkja beri frá synjunarákvæðum b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Í hinni kærðu ákvörðun um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé ítarlegur rökstuðningur fyrir niðurstöðu embættisins og farið yfir hvernig atvik málsins heimfærist undir f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Vísað sé til umfjöllunar hinnar kærðu ákvörðunar umboðsmanns skuldara hvað þá niðurstöðu embættisins varði.

Hin kærða ákvörðun hafi byggst á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem legið hafi fyrir. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem geti breytt þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi verið byggð á.

Umboðsmaður skuldara fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem þar komi fram.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Þá er samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnaði kærandi til eftirtalinna skuldbindinga á tímabilinu apríl 2018 til ágúst 2019 í krónum:

Kröfuhafi

Útg.dagur

Höfuðstóll

Mánaðarleg afborgun

 

 

 

Netgíró

01.04.2018

120.000

6.917

Netgíró

02.05.2018

80.000

4.852

Aktiva

07.05.2018

200.000

10.977

Netgíró

01.08.2018

150.000

8.553

Aktiva

15.08.2018

100.000

5.936

Aktiva

23.08.2018

50.000

3.068

Aur

03.09.2018

200.000

10.118

Aur

20.09.2018

150.000

7.676

Netgíró

28.09.2018

49.990

6.728

Aur

12.10.2018

150.000

7.676

Netgíró

25.10.2018

38.270

7.350

Greiðslumiðlun

29.10.2018

43.582

1.067

Greiðslumiðlun

5.11.2018

203.915

7.614

Framtíðin lánasj.

21.11.2018

250.000

12.986

Greiðslumiðlun

29.11.2018

35.980

2.094

Greiðslumiðlun

13.12.2018

51.283

3.677

Greiðslumiðlun

22.12.2018

27.990

2.109

Netgíró

29.12.2018

50.000

3.554

Greiðslumiðlun

29.12.2018

178.809

9.358

Netgíró

12.01.2019

20.874

7.373

Netgíró

25.01.2019

24.992

9.008

Netgíró

25.01.2019

14.990

7.497

Netgíró

25.01.2019

15.006

7.504

Netgíró

08.02.2019

10.337

5.169

Netgíró

9.02.2019

17.488

5.489

Netgíró

11.02.2019

52.865

6.273

Netgíró

13.02.2019

21.936

7.312

Netgíró

15.02.2019

15.041

7.521

Netgíró

03.03.2019

20.153

6.718

Netgíró

08.03.2019

20.971

6.991

Netgíró

08.03.2019

14.822

7.411

Netgíró

12.03.2019

25.533

8.511

Netgíró

12.03.2019

12.342

6.171

Netgíró

13.03.2019

90.247

3.760

Netgíró

25.03.2019

15.671

7.835

Netgíró

31.03.2019

25.552

8.517

Greiðslumiðlun

01.05.2019

33.254

1.479

Greiðslumiðlun

10.06.2019

170.985

6.609

Greiðslumiðlun

12.06.2019

29.090

2.809

Lykill Fjármögnun

02.07.2019

1.025.648

33.215

Greiðslumiðlun

18.07.2019

15.315

8.147

Greiðslumiðlun

19.07.2019

12.191

12.381

Greiðslumiðlun

22.07.2019

10.880

10.880

Greiðslumiðlun

25.07.2019

130.000

5.148

Lykill Fjármögnun

29.07.2019

1.456.000

29.500

Greiðslumiðlun

16.08.2019

49.156

4.097

Samtals

4.025.158

355.635

Samkvæmt gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2018 og 2019 í krónum:

 

 

2018

2019

Ráðstöfunartekjur á mánuði

543.849

549.024

- Áætlaður framfærslukostnaður

-388.841

-388.841

Greiðslugeta að meðaltali á mánuði

155.008

160.183

 

Samkvæmt gögnum málsins stofnaði kærandi til skuldbindinga á tímabilinu apríl 2018 til ágúst 2019, en mánaðarleg greiðslubyrði af þeim nam samtals 355.635 kr. á mánuði. Að teknu tilliti til greiðslubyrðar kæranda af námslánum að fjárhæð 16.259 kr. voru mánaðarlegar skuldbindingar kæranda samtals 371.894 krónur. Á sama tíma var greiðslugeta kæranda, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, samtals 160.183 kr. að meðaltali.

Að mati úrskurðarnefndarinnar gáfu hvorki tekjur kæranda né eignastaða tilefni til að ætla að hún gæti staðið undir greiðslu þeirra skulda sem hún stofnaði til á framangreindu tímabili febrúar til ágúst 2019. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan og með því að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árinu 2019, er það jafnframt mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi verið með þeim hætti að hún hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma. Er þá sérstaklega horft til þess að kærandi gerði fjölda lánasamninga tímabilinu febrúar 2019 til ágúst 2019, þrátt fyrir að vera með neikvæða greiðslugetu. Kærandi greindi frá því í kæru sinni að hún hefði stofnað til lánasamninganna eftir fráfall ættingja síns og lagði fram læknisvottorð þar sem fram kemur að þekkt sé að „kaupsýki“ sé aukin hjá fólki í andlegu ójafnvægi og virðist sem það hafi verið afleiðing af veikindum hennar á þessum tíma. Þrátt fyrir fyrrgreint læknisvottorð telur úrskurðarnefndin að með því að gera áðurnefnda lánasamninga hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, sé óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli sérstaklega taka tillit til þess hvort atriði sem rakin eru í liðum a til g eigi við. Eins og þegar hefur verið rakið taldi umboðsmaður skuldara að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við um háttsemi kæranda. Ákvæðið varðar þá hegðun skuldara að standa ekki við skuldbindingar sínar með ámælisverðum hætti eftir því sem honum er unnt.

Skýra verður f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í samhengi við önnur ákvæði 6. gr. lge. svo og þann tilgang laganna að jafnvægi sé komið á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lögin gera ráð fyrir því að framganga skuldara áður en greiðsluaðlögunarumleitanir hófust verði sérstaklega metin.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ekki krafist fullrar greiðslu í samræmi við kaupsamning um bifreiðina X. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að háttsemin hafi verið óhæfileg en til þess er þó að líta að þegar um verulegan fjárhagsvanda er að ræða má gera ráð fyrir að eitt og annað kunni að fara úrskeiðis, án þess þó að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. verði talinn eiga við um háttsemina.

Samkvæmt öllu því, sem hér hefur verið rakið, telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum